Japansk-íslenska viðskiptaráðið – Samþykktir

Samþykktir japansk-íslenska viðskiptaráðsins

I. NAFN

1. grein

Nafn ráðsins er Japansk íslenska viðskiptaráðið, hér eftir nefnt ráðið.

Heimili og varnarþing ráðsins er í Reykjavík og um réttarstöðu þess fer að íslenskum lögum.

II. MARKMIÐ OG STARFSEMI

2. grein

Markmið ráðsins er að efla og viðhalda viðskiptatengslum milli Japans og Íslands, ásamt því að efla samvinnu og viðskipti milli fyrritækja beggja landa. Ennfremur að stuðla að eflingu tengla á sviðum menntunar, menningar, viðskipta og stjórnmála.

3. grein

Í samræmi við markmið ráðsins skal það m.a. vinna að eftirfarandi:

 1. Skipuleggja fundi og ráðstefnur er varða almenn málefni milli landanna tveggja.
 2. Skipuleggja heimsóknir aðila í viðskiptalífinu til beggja landa.
 3. Standa vörð um viðskiptatengda hagsmuni félaga sinna gagnvart japönskum og íslenskum yfirvöldum.
 4. Veita beina þjónustu samkvæmt ákvörðun stjórnar, þ.e. veita upplýsingar um viðskiptatengiliði, aðstoða við að koma á viðskiptatengslum á milli fyrirtækja og dreifa upplýsingum er varða viðskipti í löndunum tveimur.

III. FÉLAGAR

4. grein

Eftirtaldir aðilar geta verið félagsmenn:

Einstaklingar með íslenskan eða japanskan ríkisborgararétt eða einstaklingar sem reka atvinnustarfsemi í öðru hvoru ríkjanna, sem og samtök þeirra. Heiðursfélagar sem stjórn býður aðild skv samþykktum þessum.

5. grein

Sækja þarf skriflega um aðild að félaginu.  Stjórn félagsins tekur ákvörðun um félagsaðild.

6. grein

Stjórn félagsins getur lagt það til við aðalfund að tiltekinn einstaklingur (eða einstaklingar) sem stuðlað hefur sérstaklega að eflingu ráðsins, markmiða þess eða tengslum á milli landanna verði gerður að heiðursfélaga þess.  Slík tillaga þarf að hljóta samþykki 2/3 hluta atkvæða viðstaddra.  Heiðursfélaga skal heimilt að sitja aðalfundi félagsins með málfrelsi og tillögurétt. 

7. grein

Úrsögn úr félaginu þarf að vera skrifleg og tekur gildi frá og með næstu áramótum eftir að hún berst.  Úrsögn breytir engu um skyldu til greiðslu árgjalds á yfirstandandi reikningsári.

8. grein

Stjórn félagsins getur með 2/3 atkvæða ákveðið að vísa félaga úr ráðinu í sérstökum tilvikum, svo sem ef um alvarlegt brot er að ræða gegn hagsmunum eða tilgangi þess, brot á samþykktum þess eða alvarlegt brot á landslögum.

IV. AÐALFUNDIR

9. grein

Aðalfund ber að halda eigi síðar en í maí á hverju ári.  Boðað skal til aðalfundar á tryggilegan og skriflegan hátt með minnst 2 vikna fyrirvara. Boðun með tölvupósti og/eða með tilkynningu á vefsíðu ráðsins er talin fullnægjandi.

Stjórn ráðsins geti boðað til aðalfundar með minnst tveggja vikna fyrirvara

10. grein

Allir félagar sem greitt hafa árgjald eiga rétt á því að mæta á fundi ráðsins, bera fram tillögur og greiða atkvæði. 

Heiðursfélagar hafa sama rétt og aðrir félagar á fundum ráðsins.

11. grein

Formaður stýrir aðalfundi eða tilnefnir sérstakan fundarstjóra.  Fundarstjóri tilnefnir fundarritara.

 Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: 

 1. Skýrsla stjórnar
 2. Ársreikningar
 3. Kosning formanns
 4. Kosning stjórnarmanna
 5. Kosning endurskoðanda
 6. Kynning á fjárhagsáætlun næsta rekstrarárs og ákvörðun árgjalda
 7. Breytingar á samþykktum
 8. Önnur mál

V. STJÓRNIN

12. grein

Í stjórn félagsins skipa 5 stjórnarmenn sem kosnir skulu af aðalfundi til tveggja ára í senn á þann hátt að formaður og 2 stjórnarmenn skulu kjörnir á stofnfundi og 2 skipaðir til eins árs. 

Formaður skal kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn í einu lagi. 

13. grein

Stjórn félagsins er heimilt að ráða framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur félagsins.

14. grein

Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri hafa heimild til að skuldbinda félagið með undirritun sinni. Ef framkvæmdastjóri hefur ekki verið ráðinn verður félagið skuldbundið með undirritun formanns eða varaformanns auk eins annars stjórnarmanns.

VI. FJÁRMÁL

15. grein

Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.

VII. BREYTINGAR Á SAMÞYKKTUM

16. grein

Tillögur til breytinga á samþykktum skulu berast stjórn í tæka tíð þannig að þær megi kynna í fundarboði aðalfundar. Ákvörðun um breytingar skal taka á aðalfundi og til að tillaga nái fram að ganga þurfa a.m.k. 2/3 fundarmanna að samþykkja hana.

17. grein

Tillögur um slit félagsins skulu sæta sömu meðferð og breytingar á samþykkturm.

Verði ákvörðun um félagsslit samþykkt skal aðalfundur jafnframt ákveða á hvern hátt hreinni eign félagsins skuli ráðstafað. Skal við slíka ákvörðun miðað við að láta eignirnar renna til aðila sem vinnur að svipuðum markmiðum og ráðið. Aðalfundur skal jafnframt kjósa skilanefnd til þess að ganga frá skuldbindingum félagsins og ráðstafa þeim eignum sem eftir verða í samræmi við áðurnefnda ákvörðun aðalfundar.

Reykjavík, 21. nóvember 2017

Stjórn 

_________________________                                                               _____________________

Úlfar Steindórsson, formaður                                                                   Ársæll Harðarsson

_________________________                                                               ______________________

Arnljótur Bjarki Bergsson                                                                          Erla Friðriksdóttir

_________________________

Ragnar Þorvarðarson

Japansk-íslenska viðskiptaráðið

Hús atvinnulífsins

Borgartúni 35, 5. hæð

105 Reykjavík

Hafa samband

bilateral@chamber.is

+354 510 7100